Orkumálinn 2024

Ekki farið austur á Seyðisfjörð í skipulögðum Walter Mitty ferðum

waltermitty seydisfjordur eldgosSeyðisfjörður er ekki einn af áfangastöðum Walter Mitty ferða sem ferðaþjónustu fyrirtækið Iceland Travel hefur skipulagt þrátt fyrir að staðurinn hafi verið notaður við tökur á kvikmyndinni sem ferðirnar eru kenndar við. Lögð er áhersla á að skoða valda tökustaði og „vinsælustu" áfangstaði ferðamanna hérlendis.

Kvikmyndin „The Secret Life of Walter Mitty" með Ben Stiller í aðalhlutverki var að hluta tekin upp á Seyðisfirði og í Fjarðarheiði haustið 2012. Myndin er jólamynd í kvikmyndahúsum víða um heim og hefur hlotið góðar viðtökur áhorfenda en misjafna dóma gagnrýnenda.

Talað hefur verið um gildi myndarinnar sem landkynningar fyrir Ísland og það hefur fyrirtækið Iceland Travel nýtt sér en það byrjaði að selja í „Walter Mitty-ferðir" skömmu fyrir jól. Ferðin tekur viku og felur í sér bílaleigubíl í sex daga, gistingu og fjölbreytta þjónustu á meðan henni stendur um tökuslóðir myndarinnar.

Þar er hins vegar ekki farið austur fyrir Jökulsárlón sem þýðir að einn stór íslenskur tökustaður, Seyðisfjörður, er skilinn eftir.

Á fyrsta degi er komið til Reykjavíkur, síðan gist tvær nætur í Vík í Mýrdal og farinn Gullni hringurinn og austur í Skaftafell og Jökulsárlón.

„Þótt markmiðið sé að sjá allt það sem tengist Walter Mitty geturðu ekki heimsótt Ísland án þess að skoða vinsælustu staði landsins," segir í kynningu Iceland Travel.

Næst er farið um Þingvallaþjóðgarð, Borgarfjörð og þaðan vestur á Snæfellsnes en atriði í myndinni voru meðal annars tekin í Geirabakaríi í Borgarnesi og Stykkishólmi. „Eyddu því sem eftir er af deginum í að rölta um bæinn og finna húsin sem sjást í myndinni," segir eftir að helsta afþreying staðarins hefur verið nefnd.

Síðasta daginn er haldið aftur til Reykjavíkur og gist þar en meðal annars er mælt með heimsókn í Bláa lónið.

Ferðirnar hafa vakið þó nokkra athygli, meðal annars verið um þær fjallað í breska dagblaðinu The Guardian og hádegisfréttum RÚV í dag.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.